Lét öllum illum látum og blóðgaði sjálfan sig

Andrey Rublev er skapstór.
Andrey Rublev er skapstór. AFP/Jamie Squire

Tenniskappinn rússneski Andrey Rublev missti stjórn á skapi sínu er hann mætti Francisco Cerundolo á Paris Masters-mótinu um helgina.

Í byrjun annars sets setti hann boltann rakleiðis í netið úr uppgjöf. Í kjölfarið snöggreiddist hann og tók upp á því að berja spaðanum ótt og títt í löppina á sér, með þeim afleiðingum að það blæddi úr honum.

Það var ekki eina atvikið sem vakti athygli áhorfenda á mótinu, því hann öskraði á fólk í stúkunni og sagði því að halda kjafti eftir að Cerundolo náði í stig. Stuttu síðar kastaði hann vatnsflösku af miklu afli í jörðina.  

Hann tapaði að lokum leiknum, 7:6 og 7:6. Hann hefur áður komist í fréttirnar fyrir skapið sitt, því hann braut einnig spaða á löppinni á sjálfum sér á Opna franska meistaramótinu fyrr á árinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka