Snorri Dagur Einarsson úr Sundfélagi Hafnarfjarðar tryggði sér í dag keppnisrétt á heimsmeistaramótinu í 25 metra laug þegar hann sigraði í 50 metra bringusundi á Íslandsmótinu í Ásvallalaug í Hafnarfirði.
Snorri og Einar Margeir Ágústsson úr Sundfélagi Akraness syndu báðir undir lágmarkinu en Snorri fékk keppnisréttinn með því að vinna greinina á 27 sekúndum sléttum. Eianr synti á 27,17 sekúndum.
Snorri tók líka þátt í Íslandsmeti í dag en hann var í blandaðri sveit Sundfélags Hafnarfjarðar sem synti 4x50 metra fjórsund á 1:45,60 mínútu og bætti tveggja ára gamalt eigið met. Með Snorra í sveitinni voru Bergur Fáfnir Bjarnason, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Vala Dís Cicero.
Sundfélag Hafnarfjarðar setti annað Íslandsmet í boðsundi en það var sveitin í 4x100 metra skriðsundi karla sem sigraði á 3:17,84 mínútum. Sveitina skipuðu Birnir Freyr Hálfdánarson, Ýmir Chatenay Sölvason, Símon Elías Statkevicius og Veigar Hrafn Sigþórsson.
Í boðsundinu setti Birnir Freyr jafnframt unglingamet þegar hann synti 100 metra skriðsund á 49,37 sekúndum. Hann sló 26 ára gamalt met Arnar Arnarsonar frá árinu 1998 en það var 49,71 sekúndur.
Vala Dís setti líka unglingamet í 200 metra skriðsundi þegar hún bætti 16 ára gamalt met Sigrúnar Brár Sverrisdóttur og synti á 1:58,63 mínútu.
Guðmundur Leo Rafnsson úr ÍRB í Reykjanesbæ setti unglingamet í 50 metra baksundi, 24,99 sekúndur, en tíu ára gamalt met Kristins Þórarinssonar var 25,18 sekúndur.
Tveir keppnisdagar af þremur eru því að baki og lokadagurinn er á morgun, sunnudag, en úrslitasundin hefjast þá um klukkan 16.30.