Crossfitkonan og tvöfaldi heimsmeistarinn Katrín Tanja Davíðsdóttir er hætt keppni í crossfit.
Katrín Tanja, sem er 31 árs gömul, greindi frá ákvörðun sinni á samfélagsmiðlinum Instagram en hún hefur verið atvinnumaður í crossfit undanfarin þrettán ár.
Þá varð hún heimsmeistari í greininni árin 2015 og 2016, hafnaði í 3. sæti á leikunum árið 2018 og í fjórða sæti árið 2019.
„Frá mínum dýpstu hjartarótum, takk fyrir mig,“ skrifaði Katrín Tanja í færslu sem hún birti á Instagram.
„Fjölskyldan mín er mér allt. Fjölskyldan mín, þjálfararnir mínir, vinir mínir, liðsfélagarnir og allir sem hafa stutt við bakið á mér undanfarin ár, þið hafið gefið mér mest á undanförnum árum.
Þegar þessum kafla í mínu lífi er að ljúka þá horfi ég til baka með miklu þakklæti. Þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar og ég trúi því svo sannarlega að það séu bjartir tímar fram undan,“ skrifaði Katrín Tanja meðal annars.