Akureyrarliðin efst eftir spennusigra

Jóhann Már Leifsson skoraði sjöunda mark Akureyringa.
Jóhann Már Leifsson skoraði sjöunda mark Akureyringa. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Skautafélag Akureyrar komst á topp Íslandsmóts karla í íshokkí í gærkvöld með því að sigra Skautafélag Reykjavíkur í bráðfjörugum markaleik í Skautahöllinni í Laugardal, 7:6.

SA er með 18 stig á toppnum eftir sigurinn en SR og Fjölnir eru bæði með 16 stig. Nýliðar SFH reka lestina með 10 stig.

Leikurinn var ótrúlega sveiflukenndur því eftir að SA komst í 2:0 í fyrsta leikhluta svaraði SR með fjórum mörkum á sjö mínútum í öðrum leikhluta og komst í 4:2.

Þessu svaraði SA hins vegar með fimm mörkum í röð áður en öðrum leikhluta lauk og var komið í 7:4 að honum loknum. SR gafst ekki upp og minnkaði muninn í eitt mark, hafði síðan hálfa fjórðu mínútu til að jafna metin en Akureyringar héldu út og fögnuðu sigri.

Ólafur Björgvinsson, Dagur Jónasson, Unnar Rúnarsson, Andri Mikaelsson, Orri Blöndal, Atli Sveinsson og Jóhann Leifsson skoruðu sitt markið hver fyrir SA en Alex Sveinsson og Sölvi Atlason skoruðu tvö mörk hvor fyrir SR, Axel Orongan og Haukur Karvelsson eitt hvor.

Sigurmark Ragnheiðar fyrir SA

Kvennalið félaganna mættust í seinni leik kvöldsins og aftur hafði SA betur í spennuleik, 2:1.  SA er því komið í efsta sætið í kvennadeildinni með 17 stig, Fjölnir er með 16 og SR 3 stig.

Friðrika Magnúsdóttir kom SR yfir strax á 2. mínútu leiksins en Amanda Bjarnadóttir jafnaði fyrir SA snemma í öðrum leikhluta. Ragnheiður Ragnarsdóttir skoraði síðan sigurmark Akureyringa fimm mínútum fyrir leikslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert