Rohan Dennis, fyrrverandi heimsmeistari í hjólreiðum, hefur játað að hafa ekið bifreið sem banaði eiginkonu hans, Melissu Hoskins, sem var líkt og Dennis ólympíufari í hjólreiðum.
Hoskins lést á sjúkrahúsi þann 30. desember 2023 eftir að Dennis keyrði á hana fyrir utan heimili þeirra í Adelaide í Ástralíu.
Breska ríkisútvarpið greinir frá því að hann hafi upphaflega verið ákærður fyrir hættulegan akstur sem olli andláti og glæfralegan akstur. Í dag játaði hann hins vegar vægara brot, að hafa með óvarlegum hætti valdið möguleika á því að valda annarri manneskju skaða.
Refsing Dennis, sem er 34 ára, verður ákveðin síðar. Hoskins var 32 ára þegar hún lést.