Nýtt Íslandsmet í boðsundi

Símon Elías Statkevicius var nálægt sínum besta tíma í dag.
Símon Elías Statkevicius var nálægt sínum besta tíma í dag. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Þrír Íslendingar luku keppni á heimsmeistaramótinu í sundi í 25 metra laug í Búdapest í morgun.

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir lenti í 8. sæti í sínum riðli og 44. sæti samtals í 50 m skriðsundi en hún synti á 25,28 sekúndum,  besti tími Jóhönnu er 25,08. 

Símon Elías Statkevicius lenti í 7. sæti í sínum riðli í 50 m skriðsundi á tímanum 21,98 sekúndum, sem er hársbreidd frá hans besta tíma sem er 21,93 sekúndur, en hann hafnaði í 39. sæti samtals.

Snorri Einarsson hafnaði í 39. sæti í 50 m bringusundi en hann synti á tímanum 27,07 sekúndum.

Þessi laugardagsmorgun endaði á að boðssundsveitin okkar í 4x100m fjórsundi blönduð sveit setti nýtt Íslandsmet, þegar þau syntu á tímanum á 3:45,01. Þetta var í fyrsta sinn sem keppt er í þessari grein á Heimsmeistaramóti og einnig í fyrsta skipti sem islensk sveit syndir þessa grein.  Sveitina skipuðu þau Guðmundur Leó Rafnsson, Einar Margeir Ágústsson, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Snæfríður Sól Jórunnardóttir. Sveitin varð í 19 sæti af 35 sveitum.

Síðasti dagur mótsins er á morgun sunnudag en þá syndir Snæfríður Sól Jórunnardóttir 200m skriðsund, Guðmundur Leó Rafnsson 200m baksund og að lokum munu strákarnir okkar taka þátt í 4x100m fjórsundi karla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert