Nýi landsliðsfyrirliðinn í eldlínunni á Old Trafford

Orri Steinn Óskarsson.
Orri Steinn Óskarsson. AFP/Ander Gillenea

Knattspyrnumaðurinn Orri Steinn Óskarsson verður í eldlínunni með félagsliði sínu Real Sociedad í kvöld þegar liðið mætir Manchester United í síðari leik liðanna í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Staðan í einvíginu er 1:1 eftir jafntefli liðanna á Spáni í síðustu viku en Orri Steinn kom þá inn á sem varamaður fyrir Ander Barrentxea á 63. mínútu.

Hann fékk tvö góð færi til þess að skora í leiknum en Paul Scholes, fyrrverandi leikmaður United, talaði um það eftir leikinn að innkoma Orra Steins hefði breytt gangi leiksins.

Orri Steinn, sem er tvítugur, var gerður að fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í gær af nýjum þjálfara liðsins, Arnari Gunnlaugssyni, en leikur United og Real Sociedad hefst klukkan 20 og verður í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert