Spænski tennisleikarinn Carlos Alcaraz kveðst ekki styðja við Novak Djokovic og aðra meðlimi leikmannasamtakanna PTPA, sem hefur lagt fram kæru gegn stærstu mótaröðum íþróttarinnar, Alþjóðatennissambandinu og Alþjóðlegri siðanefnd í tennis.
PTPA leikmannasamtökin sögðust í tilkynningu leggja kæruna fram fyrir hönd allra atvinnutennisleikara en ljóst er að ekki taka allir í sama streng og samtökin.
Í kærunni er mótadagskrá, aðferðir við stigagjöf vegna styrkleikalista og skortur á stjórn á eigin ímyndarrétti á meðal þess sem er gagnrýnt.
„Þetta kom mér á óvart því enginn var búinn að segja mér frá þessu. Það eru hlutir sem ég er sammála og aðrir hlutir sem ég er ósammála. Aðalatriðið er að ég styð ekki það sem var gert,“ sagði Alcaraz við fréttamenn fyrir Miami Open-mótið í Flórída í Bandaríkjunum.