Ólympíumeistari í keppnisbann

Ahmed Hafnaoui fagnar sigrinum á Ólympíuleikunum í Tókíó 2021.
Ahmed Hafnaoui fagnar sigrinum á Ólympíuleikunum í Tókíó 2021. AFP

Ólympíugullverðlaunahafinn, Ahmed Hafnaoui, frá Túnis hefur verið dæmdur í keppnisbann í 21 mánuð fyrir að brjóta svokallaða staðsetningarreglu Alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunarinnar.

Þetta tilkynnti svokölluð heiðarleikanefnd Alþjóða sundsambandsins. Hafnaoui hefur samþykkt keppnisbannið.

Svo hægt sé að taka óvænt lyfjapróf

Gaf Túnisbúinn, sem vann til gullverðlauna í 400 metra skriðsundi á Ólympíuleikunum í Tókíó 2021, þrisvar sinnum upp rangar upplýsingar um staðsetningu sína á 12 mánaða tímabili.

Íþróttamenn á efsta stigi þurfa að gefa upp staðsetningu sína til lyfjaeftirlits svo hægt sé að mæta óvænt og taka af þeim lyfjapróf hvenær sem er.

Bannið tekur gildi afturvirkt frá 11 apríl í fyrra og öll sund Túnisbúans eru ógild frá þeim tíma. Hann fær að keppa á ný 10. janúar 2026.

Hafnaoui sigraði einnig á heimsmeistaramótinu 2023 í bæði 800 metra og 1.500 metra skriðsundi.

Hann var frá keppni vegna meiðsla á síðasta ári og tók þess vegna ekki þátt á Ólympíuleikunum í París.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka