KA er Íslandsmeistari

KA-konur stilla sér upp eftir afhendingu Íslandsbikarsins á Akureyri í …
KA-konur stilla sér upp eftir afhendingu Íslandsbikarsins á Akureyri í kvöld. mbl.is/Egill Bjarni

KA tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna í kvöld með 3:1 sigri á Völsungi í KA-heimilinu á Akureyri.

Lið KA vann alla titla sem í boði voru á tímabilinu og kórónaði frábært tímabil með sigrinum í kvöld en með honum vann KA úrslitaeinvígi liðanna 3:0.

KA tapaði aðeins tveimur leikjum í vetur. Annar þeirra var gegn Völsungi en norðanliðin tvö stóðu upp úr í deildinni og mátti því búast við harðri úrslitarimmu. KA var með heimaleikjaréttinn og vann fyrstu tvo leiki úrslitaeinvígisins 3:0. Í kvöld var allt annað uppi á teningnum og boðið var upp á sannkallaða maraþonviðureign þar sem fullt hús stuðningsfólks hvatti lið sín ákaft.

KA byrjaði leikinn af miklum krafti og vann fyrstu hrinuna. KA komst í 21:11 en hrinunni lauk 25:21. Völsungur svaraði með stórgóðri frammistöðu í annarri hrinu og vann hana örugglega 18:25.

KA leiddi í byrjun en Völsungar snéru öllu á hvolf um miðja hrinuna og stungu hreinlega af. Þá skoruðu Húsvíkingar ellefu stig í röð, sem er fáheyrt í blaki. Staðan fór úr 9:5 í 9:16. Húsvíkingar létu kné fylgja kviði og lokuðu hrinunni af öryggi eftir að KA minnkaði muninn í 14:16.

Spennan var lengi vel gríðarleg í þriðju hrinunni en þar leiddi Völsungur framan af. Um miðja hrinu sigu KA-konur fram úr með Juliu Bonet Carreras og Paulu del Olmo í fantaformi. KA komst í 20:13 og kláraði hrinuna með tveimur ásum frá Paulu. Lokatölur urðu 25:17.

Nú var ekki aftur snúið hjá heimakonum. Þær fundu lyktina af sigri og eftir bras í upphafi fjórðu hrinu héldu KA-konum engin bönd. Stigin komu á færibandi og fylltu fljótt lestina. Fljótlega var staðan orðin 15:6 og ljóst í hvert stefndi. Paula fór hamförum og leiddi stöllur sínar til sigurs. Lauk hrinunni 25:14 og var mikið fagnað í leikslok.

Spánverjarnir Julia og Paula voru sem oft áður atkvæðamestar í liði KA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert