Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Í síðustu viku var Gamla ljósmyndin frá því á áttunda áratugnum en að þessu sinni er farið óvenju stutt aftur í tímann eða „einungis“ átta ár.
Kvennalandsliðið í íshokkí náði sínum besta árangri frá upphafi fyrr í þessum mánuði þegar liðið hafnaði í 3. sæti í efri riðli 2. deildar á HM í íshokkí í Póllandi og barðist um að komast upp í 1. deild. Liðið tapaði aðeins fyrir heimaliðinu Póllandi og vann til að mynda Spán sem náði efsta sætinu og fór upp um deild.
Sunna Björgvinsdóttir var marksækin að venju á HM og skoraði í þremur leikjum Íslands í Póllandi.
Á meðfylgjandi mynd fagna hún og Silvía Björgvinsdóttir marki á HM árið 2017 en neðri riðill 2. deildar fór þá fram á Akureyri eða í vöggu íþróttarinnar á Íslandi eins og stundum er talað um.
Þar náði Þórir Tryggvason þessari skemmtilegu mynd eftir að Sunna skoraði í sigurleik gegn Rúmeníu eftir stoðsendingu frá Silvíu og birtist myndin í Morgunblaðinu 28. febrúar 2017 en Þórir hefur náð ófáum góðum íþróttamyndum fyrir Morgunblaðið og mbl.is. Sunna snýr að myndavélinni og er númer (12).
Þær Sunna og Silvía voru þá aðeins 17 og 18 ára og ættu því að eiga mörg góð ár eftir í landsliðstreyjunni. Silvía lagði einmitt upp eitt marka fyrir Sunnu í Póllandi.
Báðar koma þær Sunna og Silvía úr Skautafélagi Akureyrar en Sunna hefur leikið í Svíþjóð í mörg ár. Þar er hún hjá Sodertalje en hefur einnig leikið með Troja-Lungby, Haninge Anchors og Leksands í Svíþjóð. Silvía var einnig um tíma hjá Södertalje en þær hafa leikið svo oft með sömu liðunum að stundum hefur þótt rétt að hnykkja á því að þær Björgvinsdættur eru ekki systur. Silvía leikur með SA en auk Södertalje hefur hún einnig leikið með Hammarby og Gautaborg í Svíþjóð og Norwich University í bandarísku háskólaíþróttunum NCAA.