Ólympíufarinn Guðlaug Edda Hannesdóttir vann Kópavogsþríþrautina í kvennaflokki og Sigurður Örn Ragnarsson vann í karlaflokki. Keppnin fór fram í Kársnesinu á Kópavogi í morgun.
Mótið var það fyrsta af sex í mótaröðinni. Það voru syntir 400 metrar í Kópavogslaug, hjólaðir 10 km á Kársnesi og hlaupnir 3,6 km þar sem endamarkið var á Rútstúni.
Guðlaug Edda vann kvennaflokkinn með yfirburðum en hún kláraði á 37:16 mínútum. Hún synti á 5:16 mínútum, hjólaði á 17 mínútum og hljóp á 12:22 mínútum.
Guðbjörg Karen Axelsdóttir var í öðru sæti á 43:47 mínútum og Brynja Dögg Sigurpálsdóttir í þriðja á 44:49 mínútum.
Sigurður Örn kláraði á 35 mínútum en hann synti á 5:10, var 16:16 mínútur að klára að hjóla og hljóp svo á 12:25 mínútum. Þetta er hvorki meira né minna en tíunda árið í röð sem Sigurður vinnur Kópavogsþrautina.
Stefán Karl Sævarsson var annar í mark á 37:16 mínútum og Arkadiusz Przybyla var aðeins sex sekúndum á eftir honum.