Austfirðingar fögnuðu sigri í 114. Íslandsglímunni á laugardaginn var því Hákon Gunnarsson og Kristín Embla Guðjónsdóttir úr UÍA sköruðu fram úr og eru glímukóngur og glímudrottning Íslands árið 2025.
Hákon sigraði í karlaflokki í fyrsta skipti en þetta er í fjórða sinn sem Kristín Embla ber sigur úr býtum.
Keppnin fór fram í íþróttahúsi Kennaraháskólans í Reykjavík og að vanda var keppt um Grettisbeltið, elsta verðlaunagrip Íslands, í karlaflokki og um Freyjumenið í kvennaflokki.
Hákon, sem er ríkjandi Evrópumeistari unglinga í keltneskri glímu, hreppti Grettisbeltið og hlaut átta vinninga. Þórður Páll Ólafsson, glímukóngurinn frá 2024, sem einnig er úr UÍA, varð annar með sjö vinninga og Gústaf Sæland úr HSK varð þriðji.
Kristín Embla sigraði í kvennaflokki eftir spennandi viðureignir. Heiðrún Fjóla R. Pálsdóttir úr HSK hafnaði í öðru sæti eftir úrslitaglímu, og Elín Eik Guðjónsdóttir frá UÍA varð í þriðja sæti.
Alls voru háðar tíu viðureignir í kvennaflokki vegna jafnrar stöðu eftir tvöfalda umferð – sem gerði keppnina um Freyjumenið að einni þeirri mest spennandi í seinni tíð.