Jóhannes Frank Jóhannesson varð tvöfaldur sigurvegari á alþjóðlegu riffilmóti í Frakklandi fyrr í þessum mánuði.
Hann keppti í svonefndu „Bench Rest“ með þungum rifflum og vann heildarkeppnina, bæði af 100 og 200 metra færi, á glæsilegan hátt.
Keppendur voru 68 frá ellefu þjóðum en fjöldi á mótinu var takmarkaður við 70 manns. Keppt var í bænum Souppes-sur-Loing, skammt sunnan við París, en þetta mót sem gengur undir nafninu Spring Trophy hefur verið haldið þar í um 30 ár.
Jóhannes stefnir á þátttöku í heimsmeistaramótinu 100 og 200 metrum sem fram fer í St. Louis í Bandaríkjunum í september. Íslandsmótið í greininni fer fram á Húsavík í júní.