Tap í spennuleik gegn Færeyingum

Hávörn Færeyinga verst Hafsteini Má Sigurðssyni í Digranesi í kvöld.
Hávörn Færeyinga verst Hafsteini Má Sigurðssyni í Digranesi í kvöld. mbl.is/BirnaMargrét

Karlalið Íslands í blaki tapaði fyrir Færeyingum í æsispennandi leik, 3:2, þegar grannþjóðirnar mættust í Evrópukeppni landsliða í Digranesi í kvöld.

Íslenska liðið hefur þar með tapað öllum þremur leikjum sínum í keppninni til þessa en þetta var fyrsti leikur Færeyinga í mótinu.

Færeyingar byrjuðu betur og unnu fyrstu tvær hrinurnar, 25:21 og 25:18. Íslenska liðið kom sér inn í leikinn með því að vinna hörkuspennandi þriðju hrinu, 25:23, og fylgdi því eftir með sigri í þeirri fjórðu, 25:20.

Oddahrinan var hnífjöfn, Færeyingar komust reyndar í 3:0 en staðan var 7:7 um hana miðja.  Ísland komst yfir í fyrsta skipti í 10:9 og síðan 12:11. Færeyingar áttu hins vegar góðan endasprett, unnu hrinuna 15:13 og leikinn þar með 3:2.

Kristján Valdimarsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 19 stig en Bjarni Joensen var með 27 stig fyrir Færeyinga og Hjörtur Joensen 21.

Færeyingar mæta Svíum í Digranesi á morgun klukkan 15 og Ísland mætir Svíþjóð á sama  tíma og sama stað á sunnudaginn.

Færeyingurinn Jóhan Wang og Valens Torfi Ingimundarson í baráttu við …
Færeyingurinn Jóhan Wang og Valens Torfi Ingimundarson í baráttu við netið í Digranesi í kvöld. mbl.is/Birna Margrét
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert