Íslenska landsliðið í frjálsíþróttum hefur í dag keppni í 3. deild Evrópubikarsins í Maribor í Slóveníu en keppt verður í 20 greinum þar í dag og á morgun.
Fimmtán þjóðir eru í 3. deildinni en auk Íslands eru það Albanía, Andorra, Armenía, Aserbaísjan, Bosnía, Georgía, Kósovó, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, Svartfjallaland, Moldóva, Norður Makedónía og San Marinó.
Flest besta frjálsíþróttafólk landsins keppir fyrir Íslands hönd í Maribor og með fyrstu mönnum af stað um hádegisbilið í dag eru sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson og langstökkvarinn Daníel Ingi Egilsson, Íslandsmethafarnir í sínum greinum.
Deildirnar í Evrópubikar eru þrjár og komast þrjú efstu liðin úr 3. deild upp um deild og keppa þá í 2. deild í næsta Evrópubikar. Evrópubikar er stigakeppni þar sem hvert og eitt land má senda einn keppanda í hverja grein. Íslenska liðið í ár samanstendur af 33 íþróttamönnum, 16 körlum og 17 konum.