Ísland styrkti áfram stöðu sína á toppi 3. deildar Evrópubikarsins í frjálsíþróttum í Maribor í Slóveníu á lokaspretti fyrri keppnisdagsins.
Ísland vann þrjár af síðustu fimm greinum dagsins og hefur þá samtals unnið sex greinar, ásamt því að vera í öðru og þriðja sæti í níu greinum til viðbótar.
Eftir fyrri hlutann, 20 greinar, er Ísland með 260 stig í efsta sætinu en á eftir koma Lúxemborg með 219,5 stig, Bosnía með 203, Moldóva með 196 og Malta með 184 stig en fimmtán þjóðir berjast í Maribor um þrjú sæti í 2. deild Evrópubikarsins.
Arndís Diljá Óskarsdóttir vann fjórða sigur dagsins fyrir hönd Íslands þegar hún vann spjótkast kvenna með 51,60 metra kasti.
Fimmti sigurinn kom í 4x100 metra boðhlaupi kvenna þar sem íslenska sveitin sigraði með glæsilegum endaspretti á 46,03 sekúndum. Eir Chang Hlésdóttir hljóp fjórða og síðasta sprettinn og tryggði sigurinn. Júlía Kristín Jóhannesdóttir, María Helga Högnadóttir, Ísold Sævarsdóttir og Eir Chang skipuðu sveitina.
Og sá sjötti kom strax í kjölfarið þegar karlasveitin lék sama leik og sigraði í 4x100 metra boðhlaupi karla á 40,85 sekúndum. Sveinbjörn Óli Svavarsson, Arnar Logi Brynjarsson, Þorleifur Einar Leifsson og Kristófer Þorgrímsson skipuðu sveitina.
Baldvin Þór Magnússon varð annar í 5.000 metra hlaupi karla á 14:30,71 mínútum.
Andrea Kolbeinsdóttir varð önnur í 3.000 metra hindrunarhlaupi kvenna á 10:07,38 mínútu, og bætti eigið Íslandsmet um rúma sekúndu, eins og áður hefur komið fram.
Birna Kristín Kristjánsdóttir varð önnur í langstökki kvenna, stökk 6,31 metra.
Þorleifur Einar Leifsson varð sjötti í hástökki karla, stökk 1,90 metra.
Sæmundur Ólafsson varð áttundi í 400 metra hlaupi karla á 49,16 sekúndum.