Alphonce Felix Simbu frá Tansaníu kom fyrstur í mark í maraþoni karla á heimsmeistaramótinu í Tókýó í Japan í nótt.
Simbu kom í mark á tímanum 2:09,48 klukkustundum og var þremur hundraðshlutum úr sekúndu á undan Þjóðverjanum Amanal Petros sem varð annar.
Ítalinn Iliass Aouani varð þriðji á tímanum 2:09,53 klukkustundum en alls voru 88 keppendur skráðir til leiks frá 47 þjóðum.
Simbu er sá fyrsti frá Tansaníu til þess að vinna til gullverðlauna á heimsmeistaramóti en hann vann til bronsverðlauna í maraþoninu á HM 2017 í Lundúnum.
