Eygló Fanndal Sturludóttir hefur dregið sig úr keppni á HM í ólympískum lyftingum vegna meiðsla en mótið stendur yfir þessa dagana í Förde í Noregi.
Eygló, sem er Evrópumeistari í -77 kg flokki og endaði í fjórða sæti á síðasta heimsmeistaramóti, var talin líkleg til afreka á mótinu.
Hún greindi frá á Instagram í dag að það hafi tekið lengri tíma en í fyrstu var haldið að jafna sig á meiðslum og að hún væri niðurbrotin með að geta ekki tekið þátt á HM.
„Ég hef verið að glíma við pirrandi meiðsli og ekki getað lyft undanfarnar vikur. Ég hef reynt allt sem ég get til að jafna mig og vera klár fyrir HM og ég er niðurbrotin með að geta ekki keppt.
Líkaminn þarf meiri tíma til að jafna sig og þetta tekur á. Ég er mjög vonsvikin og sorgmædd og ég átti aldrei von á því að vera svona lengi frá,“ skrifaði hún m.a. á samfélagsmiðilinn.
