Hnefaleikamaðurinn Ricky Hatton svipti sig lífi en hann fannst látinn 46 ára að aldri á heimili sínu 14. september síðastliðinn.
Paul Speak, umboðsmaður heimsmeistarans fyrrverandi, kom að honum látnum. Útför Hattons fór fram í dómkirkjunni í Manchester á sunnudaginn var, að viðstöddum fjölmörgu stuðningsfólki.
Hatton, sem var frá Manchester og var dyggur stuðningsmaður Manchester City, keppti á árunum 1997 til 2012 og varð heimsmeistari í veltivigt og léttveltivigt.
Embætti landlæknis bendir á að mikilvægt sé að þeir sem glíma við sjálfsvígshugsanir segi einhverjum frá líðan sinni, hvort sem er aðstandanda eða hafi samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717 eða á netspjalli 1717.is, við hjúkrunarfræðing í netspjalli á heilsuvera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-samtakanna s. 552-2218. Píeta-samtökin bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyrir aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir.
Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi bendir landlæknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-samtökunum í síma 552-2218.