Ástralski ökuþórinn Joey Mawson mætti fyrir dómstóla í La Cóte í Sviss á miðvikudaginn en hann er grunaður um nauðgun á heimili þýska ökuþórsins fyrrverandi Michaels Schumachers.
Það er The Telegraph sem greinir frá þessu en meint atvik átti sér stað í nóvember árið 2019 á sveitasetri fjölskyldunnar í Sviss.
Mawson, sem er góðvinur Micks Schumachers sem er sonur Michaels Schumachers, er grunaður um að hafa nauðgað hjúkrunarfræðingi sem annaðist Schumacher eldri í tvígang.
Mawson, sem hefur tvívegis fagnað sigri í ástralska meistaramótinu í S5000-kappakstrinum, hefur neitað sök í málinu en hjúkrunarfræðingurinn kærði hann fyrir nauðgun tveimur árum eftir að atvikin áttu sér stað.
Í frétt The Telegraph kemur meðal annars fram að hjúkrunarfræðingurinn hafi verið sofandi vegna ofneyslu áfengis þegar Mawson á að hafa brotið á henni en hún starfar ekki fyrir Schumacher-fjölskylduna núna.
Enginn af meðlimum Schumacher-fjölskyldunnar er með stöðu sakbornings í málinu en lítið er vitað um ástand ökuþórsins fyrrverandi eftir að hann lenti í alvarlegu skíðaslysi í frönsku Ölpunum þann 29. desember árið 2013.