Clarke mættur til leiks sem nýr og betri maður

Darren Clarke er hættur að reykja og hefur náð af …
Darren Clarke er hættur að reykja og hefur náð af sér nokkrum kílóum. AP

Norður-Írinn Darren Clarke er hættur að reykja og búinn að létta sig um 15 kílógrömm frá því á síðasta ári. Þetta virðist gera honum gott því hann hefur leikið vel fyrstu tvo hringina á Mercedes PGA-mótinu á Havaí. Hann réði til sín einkaþjálfara, Steve Hampson, sl. sumar til að koma sér í góða æfingu og það hefur skilað sér. Hann lék nú í fyrsta sinn án þess að vera með nikótín í líkama sínum.

Clarke, sem er í þriðja sæti þegar PGA-mótið á Havaí er hálfnað, sagði að á síðasta keppnistímabili hafði líkamlegt ástand farið að hafa slæm áhrif á gengi hans. Hann varð því að taka sér tak ef hann ætlaði sér að verða áfram á meðal þeirra bestu.

Hann byrjaði vel á mótinu á Havaí og lék fyrsta hringinn á 67 höggum og var einu höggi á eftir Stuart Appleby, sem hafði forystu. Clarke lék annan hringinn á 69 höggum og er á samtals á 10 höggum undir pari og fjórum höggum frá Vijay Singh, sem er efstur þegar mótið er hálfnað.

„Ég ákvað að hætta að reykja um áramótin og hef ekki fengið mér smók síðan. Ég mun reyna allt til að halda mér frá reykingum, ég veit að það hefur slæm áhrif á leik minn,“ sagði Clarke, sem einnig hefur sagt skilið við bjórdrykkju. „Enginn bjór og ekkert nikótín. Það er ótrúlegt. Þetta var í fyrsta sinn sem ég keppi án þess að reykja og það eru auðvitað viðbrigði fyrir mig, en ég held ég geti alveg vanist því,“ sagði Clarke og brosti.

Átta af 10 bestu kylfingum heims taka þátt í Opnunarmóti PGA-mótaraðarinnar á Havaí. „Allir kylfingarnir sem eru á meðal tíu efstu á heimslistanum eru í góðri líkamlegri æfingu. Það var því kominn tími til þess að ég gerði eitthvað í þessu. Þetta er eitthvað sem ég vildi gera fyrir sjálfan mig. Ég hef gengið í gegnum miklar breytingar á öðrum hliðum leiksins og þetta er sú hlið sem ég varð að breyta líka.“

Clarke eins og hann var á síðasta keppnistímabili.
Clarke eins og hann var á síðasta keppnistímabili. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert