Sló golfbolta 630 metra!

Stuart Appleby veifar til áhorfenda.
Stuart Appleby veifar til áhorfenda. AP

Ástralski kylfingurinn Stuart Appleby sló í dag sitt lengsta högg á ferlinum. Hann sendi golfboltann 630,58 metra á flugbraut í Sydney í Ástralíu. Þetta er eitt lengsta upphafshögg (drive) sem vitað er um. Boltinn rúllaði að vísu nokkuð langa vegalengd á hörðu malbikinu eftir gott flug. „Brautin var þó ekkert mikið harðari en á Opna breska mótinu,“ sagði Appleby og brosti.

Flugbrautinni í Sydney, 16L-34R, sem er 2,5 km að lengd, var lokað í klukkustund meðan fjórir kylfingar kepptu um hver gæti slegið boltann lengst. Appleby sigraði og fékk 5.000 dollara í verðlaun.

Keppinautar hans voru John Senden, sem var í öðru sæti með 622,98 metra. Þá kom Ný-Sjálendingurinn Michael Campbell með 603,44 metra og loks Ástralinn Peter O'Malley með 581,07 metra.

Þetta sýningarmót var sett á sem upphitun fyrir Opna ástralska meistaramótið sem hefst í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert