Nick Faldo: Miklir möguleikar fyrir hendi í Þorlákshöfn

Nick Faldo á blaðamannafundinum í dag.
Nick Faldo á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Sverrir

Enski kylfingurinn Nick Faldo sagði á blaðamannafundi á Nordica hótel í dag að hönnun golfvallar í Þorlákshöfn væri mikil áskorun fyrir sig og að miklir möguleikar væru fyrir hendi. Faldo sagði landið vera einstakt og byði upp á mikla sérstöðu fyrir golfvöllinn sem áætlað er að taka í notkun haustið 2008.

Aðkoma Faldos að verkefninu kemur til af því að fulltrúar einkahlutafélagsins Golf ehf settu sig í sambandið við hann snemma á þessu ári. Margeir Vilhjálmsson er talsmaður félagsins sem á veg og vanda að verkefninu. Félagið leigir landið af sveitarfélaginu Ölfusi og hefur samið við MP fjárfestingarbanka um aðkomu hans að fjáröflun verkefnisins. Talið er að stofnkostnaður verði í kringum 800 milljónir króna, en inni í því er fyrsta flokks aðstaða auk golfvallar. Margeir sagði á fundinum að völlurinn ætti að vera í þeim gæðaflokki að erlendir kylfingar myndu hafa áhuga á því að koma til landsins og leika golf á honum. Auk þess væri þá kominn aðstaða á Íslandi til þess að hýsa mót á evrópsku mótaröðinni, ef áhuga væri fyrir slíku í framtíðinni.

Faldo tók undir þetta með Margeiri og sagði mikla möguleika vera fyrir hendi vegna sérstöðu landsins. Talaði hann sérstaklega um hinn svarta sand sem væri á svæðinu, en hann gæfi vellinum óvenjulegan blæ. Strandvellir eru algengir í Skotlandi og á Írlandi, en þá er átt við velli við sjávarsíðuna þar sem golfvöllurinn hefur verið mótaður eftir upprunalegri legu landsins. Að sögn Faldos er landið í Þorlákshöfn eins og best gerist fyrir slíka velli, og það verði mikil áskorun fyrir sig að búa til heimsklassa golfvöll úr því. Hann hefur því fulla trú á því að völlurinn muni verða með þekktustu golfvöllum í heiminum, hvorki meira né minna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert