Sigurpáll sigraði með yfirburðum á Kävlinge-vellinum

Sigurpáll Geir Sveinsson.
Sigurpáll Geir Sveinsson. mbl.is/seth@mbl.is/golf@mbl.is

Sigurpáll Geir Sveinsson, atvinnukylfingur úr Kili Mosfellsbæ, sigraði á einu af fjórum úrtökumótum sænsku atvinnumótaraðarinnar í dag en hann lék 54 holur á Kävlinge-vellinum á 7 höggum undir pari samtals. Sigurpáll er því búinn að öðlast keppnisrétt á sænsku atvinnumótaröðinni á næsta ári líkt og Heiðar Davíð Bragason, félagi hans úr Kili. Sigurpáll var 6 höggum betri en helstu keppinautar hans á þessum velli. Hann var sá eini af fimm íslenskum kylfingum sem kepptu á úrtökumótinu.

Sigurpáll fékk 6 fugla (-1) í dag og þar af fjóra í röð á 12.-15. braut en hann lék síðari 9 holurnar á 32 höggum og samtals á 68 höggum. Auðunn Einarsson úr GK lék einnig á Kävlinge-vellinum en hann náði sér ekki á strik í dag og lék á 78 höggum, 6 höggum yfir pari vallar. Auðunn endaði í 17.-22. sæti og fær því mjög takmarkaðan þátttökurétt á sænsku mótaröðinni á næsta keppnistímabili.

Á Kristianstad-vellinum léku þrír íslenskir kylfingar á úrtökumótinu. Stefán Már Stefánsson úr GR náði ekki að fylgja góðri byrjun sinni eftir en hann lék á 80 höggum í dag og samtals á 10 höggum yfir pari. Stefán lék á þremur höggum undir pari á fyrsta keppnisdegi mótsins og var þá efstur en í gær lék hann á 77 höggum og 80 höggum í dag. Stefán er með mjög takmarkaðan keppnisrétt á sænsku mótaröðinni á næsta ári. Magnús Lárusson úr Kili lék mjög illa á Kristianstad-vellinum í dag, notaði þar 89 högg, og endaði hann í 41. sæti, því neðsta af þeim sem komust í gegnum niðurskurðinn. Magnús lék hringina þrjá 72, 76 og 89 höggum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert