Fjórir kylfingar keppa um sigurinn á Honda meistaramótinu

Camilo Villegas.
Camilo Villegas. Reuters

Keppni á Honda meistaramótinu á PGA-mótaröðinni í golfi heldur áfram í dag en fjórir kylfingar eru jafnir og ráðast úrslit í bráðabana. Boo Weekley fékk skolla (+1) á 18. braut í gær en hann hefði tryggt sér sigur með því að fá par. Weekley mætti því á teig í bráðabana þar sem hann á í höggi við Camilo Villegas frá Kolumbíu, Argentínumanninn Jose Coceres og Mark Wilson sem er frá Bandaríkjunum líkt og Weekley. Þeir léku allir 72 holur á 5 höggum undir pari.

Í gær náðu fjórmenningarnir að ljúka við eina holu í bráðabananum og léku þeir allir á pari á 18. braut sem er par 5 hola. Weekley sagði að taugarnar hefðu verið þandar á lokaholunni en hann hefur aldrei sigrað á PGA-móti og eru um 70 millj. kr. í boði fyrir sigurvegara mótsins.

Hann hefur á undanförnum árum leikið á Nationwide mótaröðinni í Bandaríkjunum sem er næst sterkasta atvinnumannadeildin þar í landi. Wilson hefur 10 sinnum farið í gegnum úrtökumóti fyrir PGA-mótaröðina. Coceres fékk fimm fugla á fyrstu fimm brautunum í gær en hann lék á 66 höggum líkt og Villegas en hann fékk fugl á 16. og 17. braut.

mbl.is

Bloggað um fréttina