Heiðar og Sigurpáll eiga möguleika - Magnús, Örn og Ottó nánast úr leik

Heiðar Davíð Bragason.
Heiðar Davíð Bragason. Brynjar Gauti

Heiðar Davíð Bragason og Sigurpáll Geir Sveinsson kylfingar úr Kili Mosfellsbæ eru þeir einu af alls fimm íslenskum kylfingum sem eiga raunhæfan möguleika á að komast í gegnum 1. stig úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í golfi að loknum fyrsta keppnisdegi. Leikið er á þremur völlum samtímis í tveimur löndum, Englandi og Þýskalandi. Heiðar Davíð lék vel í dag eða á 2 höggum undir pari Fleesensee vallarins í Þýskalandi, 70 höggum, og er hann í 16.-25. sæti af alls 99 kylfingum. Sigurpáll er í 40.-48. sæti á sama velli en hann lék á 72 höggum í dag. Alls fá 26 efstu kylfingarnir á þessum velli keppnisrétt á 2. stigi úrtökumótsins.

Magnús Lárusson úr Kili lék illa á Chart Hills vellinum á Englandi en hann er í 99.-100. sæti af alls 104 keppendum eftir að hafa leikið á 12 höggum yfir pari eða 82 höggum. Ottó Sigurðsson, Íslandsmeistari í holukeppni, úr GKG og Örn Ævar Hjartarson úr GS, léku báðir á 80 höggum eða 8 höggum yfir pari á Oxfordshire golfvellinum á Englandi. Þeir eru í 101-105. sæti af alls 110 keppendum en 29 kylfingar komast áfram á 2. stigið af þessum velli að loknum fjórða og síðasta keppnisdegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert