Ekkert fær stöðvað Tiger Woods

Tiger Woods fagnaði sigri í dag á heimsmótinu í holukeppni.
Tiger Woods fagnaði sigri í dag á heimsmótinu í holukeppni. Reuters

Tiger Woods átti ekki í vandræðum með Stewart Cink í úrslitum heimsmótsins í holukeppni og er þetta 15. sigur hans á heimsmóti í golfi. Woods hefur nú titil að verja á öllum þremur heimsmótunum henn sigraði einnig á Bridgestone meistaramótinu og CA meistaramótinu á Doral vellinum. Úrslitaleikurinn var langt frá því að vera spennandi því Woods var með mikla yfirburði. Woods fékk 14 fugla á 29 holum og var hann með 8 vinninga þegar 7 holur voru eftir.

Þetta er mesti munur í úrslitaleik mótsins sem fór fyrst fram fyrir 10 árum. Woods hefur nú sigrað á síðustu fjórum mótum sem hann hefur tekið þátt í á PGA-mótaröðinni og þetta var fimmta mótið í röð sem hann vinnur en Woods sigraði á Dubai meistaramótinu á Evrópumótaröðinni.

Woods hefur nú sigrað á 63 mótum á PGA-mótaröðinni og fór hann upp fyrir Arnold Palmer yfir sigursælustu kylfinga frá upphafi á PGA-mótaröðinni. Woods er núna í fjórða sæti en Ben Hogan er í sætinu fyrir ofan en hann sigraði á 64 PGA-mótum á sínum tíma.

„Það er heiður að vera í hópi þessara heiðursmanna sem skipa efstu sæti á listanum yfir flesta sigra á PGA-mótaröðinni,“ sagði Woods m.a. eftir sigurinn í Arizona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert