Tiger hvílir fram að Opna breska

Rocco Mediate og Tiger Woods skemmtu sér vel á lokaathöfninni.
Rocco Mediate og Tiger Woods skemmtu sér vel á lokaathöfninni. Reuters

„Ég er glaður að þetta er búið og ég hef ekki áhuga á því að fara í golf á næstunni. Hnéð á mér er bólgið og ég finn til þegar ég slæ,“ sagði Tiger Woods eftir sigurinn á Opna bandaríska meistaramótinu í gær en úrslit réðust ekki fyrr en á 19. holu í bráðabana gegn Rocco Mediate. Woods sagði að líklega myndi hann ekki keppa á ný fyrr en á Opna breska meistaramótinu í júlí.

„Það var erfitt að landa þessum sigri. Ég þurfti að grafa djúpt og mér hefur oft liðið betur á vellinum. Ég byrjaði skelfilega á sumum keppnisdögunum en sem betur fer tókst mér að byrja vel í umspilinu en ég klúðraði því strax á þriðju holu,“ sagði Woods sem hefur nú sigrað á 14 stórmótum en aðeins Jack Nicklaus er með fleiri sigra á því sviði, alls 18.

„Ég verð að vera heiðarlegur og segja að ég var ekki viss um hvar ég stæði þegar ég hóf leik á þessu móti. Ég hafði ekki gengið 18 holur frá því á Mastersmótinu. Við lékum síðan 91 holu og ég er ánægður með sigurinn – virkilega ánægður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert