Ryderkeppnin: Monty setur traust sitt á Westwood

Lee Westwood og Colin Montgomerie.
Lee Westwood og Colin Montgomerie. Reuters

Colin Montgomerie fyrirliði Ryderliðs Evrópu leggur allt traust sitt á að enski kylfingurinn Lee Westwood skili sigri í fyrsta leiknum í tvímenningnum á lokakeppnisdegi Ryderkeppninnar á morgun á Celtic Manor í Wales. Westwood mætir Steve Stricker í fyrsta leiknum af alls tólf.

Westwood hefur leikið gríðarlega vel í fyrstu þremur umferðum keppninnar en hann gjörsigraði Stricker og Tiger Woods í fjórmenningum í dag þar sem hann lék með landa sínum Luke Donald. Þeir höfðu betur 6/5.

Athygli vekur að hinn ungi Norður-Íri Rory McIlroy er annnar í rásröðinni hjá Evrópu og verður hinn þaulreyndi Jim Furyk mótherji hans.  

Montgomerie sagði á fundi með fréttamönnum í kvöld að lokadagurinn væri settur upp eins og að liðin væru jöfn. „Við leggjum lokadaginn upp með þeim hætti að allt sé jafnt og við ætlum okkur að vinna síðustu umferðina. Ef okkur tekst  það þá er markmiðinu náð – við vinnum keppnina,“  sagði Montgomerie í kvöld.

„Ég er sannfærður um að Rory mun standast álagið sem fylgir því að vera annar í röðinni. Hann er í liðinu af því hann er nógu góður til þess og við höfum fulla trú á honum,“  sagði Montgomerie.

Norður-Írinn Greame McDowell verður í síðasta leiknum en hann mætir Hunter Mahan. „Greame er ungur maður með gríðarlegt sjálfstraust eftir sigurinn á opna bandaríska meistaramótinu. Ef þetta verður sá leikur sem mun ráða úrslitum þá er hann rétti maðurinn. Það er gríðarleg breidd í okkar liði,“  sagði Montgomerie en hann er ekki undrandi á því að kylfingarnir í 1. og 2. sæti heimslistans séu í áttunda og tíunda leiknum á morgun.  Tiger Woods, efsti kylfingur heimslistans, er í áttunda leiknum og  Phil Mickelson, sem er annar í röðinni á þeim lista er í leik nr. 10 á morgun.

Pavin ver ákvörðun sína

Corey Pavin fyrirliði bandaríska liðsins varði ákvörðun sína að setja Woods í áttunda leikinn. „Ég held að þetta sé rétti staðurinn fyrir hann. Ef okkur gengur vel í leikjunum á undan verður áttundi leikurinn gríðarlega mikilvægur. Reyndar eru allir leikirnir mikilvægir. Það eru reynslumiklir kylfingar sem fara út fyrstir hjá okkur, þeir sem hafa leikið vel að undanförnu eru einnig framarlega, og ég setti þá sem þekkja álagið sem fylgir þessari keppni í síðustu leikina,“  sagði Pavin.

Rástímar lokakeppnisdagsins:

8:05:  Lee Westwood - Steve Stricker

8:17:  Rory McIlroy - Stewart Cink

8:29:  Luke  Donald - Jim Furyk

8:41:  Martin Kaymer - Dustin Johnson

8:53:  Ian Poulter - Matt Kuchar

9:05: Ross Fisher - Jeff Overton

9:17:  Miquel Angel Jimenez – Bubba Watson

9:29:  Francesco Molinari – Tiger Woods

9:41: Edoardo Molinari – Ricky Fowler

9:53: Peter Hanson - Phil Mickelson

10:05: Padraig Harrington – Zach Johnson

10:17: Greame McDowell ­ – Hunter Mahan.

mbl.is

Bloggað um fréttina