McDowell og Furyk jafnir og efstir

Graeme McDowell á 14. holunni í kvöld.
Graeme McDowell á 14. holunni í kvöld. AFP

Graeme McDowell frá Norður-Írlandi og Jim Furyk frá Bandaríkjunum eru efstir og jafnir eftir þrjá hringi á US Open, opna bandaríska meistaramótinu í golfi, en kylfingarnir voru að ljúka þriðja og næstsíðasta hringnum rétt í þessu.

McDowell lék á 2 höggum undir pari í dag og Furyk á pari, en þeir eru samtals á 209 höggum hvor, eða einu höggi undir pari vallarins.

Fredrik Jacobson frá Svíþjóð er þriðji á 211 höggum, einu yfir pari, og síðan koma jafnir á 212 höggum þeir Lee Westwood frá Englandi, Ernie Els frá Suður-Afríku, Blake Adams frá Bandaríkjunum og Nicolas Colsaerts frá Belgíu.

Westwood lék best í dag af þeim sem eru í baráttunni en hann spilaði hringinn á 67 höggum, þremur undir pari.

Tiger Woods gekk illa á þriðja hringnum en hann lék á fimm höggum yfir pari og er í 14.-17. sæti ásamt þremur öðrum kylfingum á 214 höggum, eða þremur yfir pari. Eftir annan hringinn í gær var Tiger fyrstur ásamt þeim Furyk og David Toms. En þó Tiger hafi gengið illa gekk Toms enn verr því hann lék hringinn á sex höggum yfir pari og hrundi niður í 18.-26. sæti með 215 högg.

Lokahringurinn er leikinn á morgun, sunnudag, og keppninni lýkur nokkru eftir miðnættið að íslenskum tíma.

Jim Furyk og Tiger Woods á þriðja hringnum í kvöld.
Jim Furyk og Tiger Woods á þriðja hringnum í kvöld. AFP
mbl.is