„Fráleitt af honum að tala svona“

Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands.
Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

„Margeir má hafa sína skoðun á mér, en það er alveg fráleitt fyrir hann að tala svona illa um íþróttina eins og hann gerir. Það er algjörlega ekkert tilefni til þess,“ sagði Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands, þegar mbl.is leitaði viðbragða hans í dag við grein Margeirs Vilhjálmssonar, stjórnarmanns Golfklúbbs Reykjavíkur.

Sjá: Vill afsögn forseta Golfsambandsins

Margeir gagnrýndi Hauk harðlega fyrir ummæli sem höfð voru eftir honum í viðtali við Fréttablaðið á dögunum, þar sem Haukur sagði meðal annars að mögulegt væri að reka golfíþróttina hér á landi án styrkja frá hinu opinbera. Þessu er Margeir ósammála eins og hann segir í greininni sem lesa má HÉR.

„Þessi maður [Margeir] hefur greinilega ekki skilið viðtalið við mig. Ég var að svara þeirri spurningu hvort golfklúbbar gætu starfað án opinbers fjár. Ég svaraði því játandi, enda eru margir klúbbar sem fá litla sem enga opinbera styrki og þeir mega vera hreyknir af rekstri sínum.

Hins vegar er það svo að flestir golfklúbbar landsins treysta á stuðning sinna sveitarfélaga til að sinna sínu frábæra starfi og það er óumdeild að margir af þessum klúbbum gætu ekki starfað óbreyttir án slíks stuðnings,“ sagði Haukur.

Mun ekki verða við hvatningu hans

Haukur hafði betur gegn Margeiri í kjöri til forseta GSÍ árið 2013 og segist vart skilja hvernig Margeir geti túlkað viðtalið á þennan hátt.

„Það er ansi langt seilst að þessi fyrrum mótframbjóðandi minn skuli ganga út frá því í viðtalinu að íslenskir golfklúbbar eigi ekki að fá stuðning sveitarfélaga. Spurningin snerist ekki um það. Svo er engu líkara en að þessi maður hrærist í allt annarri golfhreyfingu en aðrir á Íslandi. Skrif hans hingað til einkennast af svo mikilli bölsýni á sama tíma og golfíþróttin hefur aldrei verið stærri eða fjölmennari,“ sagði Haukur.

Í lok greinar sinnar sagði Margeir að viðtalið mætti nánast túlka sem opinbert uppsagnarbréf Hauks og að golfklúbbar landsins þurfi að lifa með því að hafa kosið hann forseta.

„Ég mun ekki verða við þeirri hvatningu hans. Margeir má hafa sína skoðun á mér, en það er alveg fráleitt af honum að tala svona illa um íþróttina eins og hann gerir. Það er algjörlega ekkert tilefni til þess,“ sagði Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands.

Margeir Vilhjálmsson.
Margeir Vilhjálmsson. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert