Lewis missti flugið

Stacy Lewis á hringnum í Phoenix í gær.
Stacy Lewis á hringnum í Phoenix í gær. AFP

Hin bandaríska Stacy Lewis er ein þeirra sem er með forystu eftir fyrsta hringinn á Founders-mótinu í Phoenix á LPGA-mótaröðinni en þar er Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á meðal keppenda. Lewis missti þó flugið eftir hreint ótrúlega spilamennsku framan af.

Lewis lék fyrri 9 holurnar á 29 höggum sem er sjö undir pari. Hún bætti við fuglum á bæði 10. og 11. holu og var því á níu undir pari eftir 11 holur. Hvort Lewis hafi á þeim tímapunkti verið farin að velta fyrir sér möguleikanum á því að fara undir 60 höggin skal ekki fullyrt um en hún hefði þá þurft að ljúka leik á þrettán undir pari. Lewis paraði næstu sex holur og fékk skolla á síðustu holunni.

Hún lauk því leik á 64 höggum eða átta undir pari vallarins og er með forystu ásamt fjórum öðrum kylfingum. Lewis er þekkt nafn á mótaröðinni og er í hópi örfárra kylfinga sem KPMG fyrirtækið styrkir eins og Ólafía Þórunn.

Skorið í mótinu er gott og 68 högg Ólafíu í gær skila henni "bara" í 46. sæti að loknum fyrsta hringnum og hún þarf að halda vel á spöðunum til að komat í gegnum niðurskurð keppenda að loknum 36 holum.

mbl.is