Slæmur lokakafli varð Ólafíu að falli

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Ljósmynd/Tristan Jones

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var rétt í þessu að klára annan hringinn á Bank of Hope Founders-meistaramótinu í golfi í Phoenix í Bandaríkjunum.

Ólafía lék hringinn á pari eða 72 höggum og er samtals á þremur höggum undir pari en það dugar henni ekki til að komast áfram. Hún hefði þurft að vera á fimm höggum undir pari til að komast í gegnum niðurskurðinn.

Slæmur lokakafli varð Ólafíu að falli en hún fékk þrjá skolla á síðustu fjórum holunum og hún hefur þar með lokið keppni á þriðja LPGA-móti sínu en mótið í Phoenix er gríðarlega sterkt og til marks um það keppa á því níu af þeim tíu efstu á heimslistanum.

Ariya Jutanugarn frá Tælandi og Stacy Lewis frá Bandaríkjunum eru í toppsætunum en báðar eru þær 13 höggum undir pari. Fimm kylfingar koma næstir á -12 og Michell Wie ein þeirra en Ólafía Þórunn var með henni í ráshópi fyrstu tvo keppnisdagana.

Bein lýsing:

18. Æ, æ. Skolli á lokaholunni og Ólafía lýkur keppni á 72 höggum eða pari. Hún er samtals á þremur höggum undir pari en það dugar henni ekki til að komast í gegnum niðurskurðinn.

17. Ólafía fékk par á 17. holunni. Hún er á samtals -4 og það er ljóst að hún þarf að fá fugl á lokaholunni til að komast áfram. Hún getur það vel.

16. Úps! Tveir skollar í röð. Ólafía lenti í vandræðum á 16. holunni eftir of langt innáhögg. Nú er hún á -4 og er ekki að komast áfram eins og staðan lítur út núna. Hún þarf fugl til komast í gegnum niðurskurðinn og við höfum fulla trú á því að henni takist það. Ariya Jutanugarn frá Tælandi og Stacy Lewis frá Bandaríkjunum eru í toppsætunum en báðar eru á -13. Michell Wie sem er með Ólafíu í ráshóp kemur þar á eftir á -12.

15. Ólafía tapaði höggi á 15. holunni. Þurfti að þrípútta. Hún er samtals á 5 höggum undir pari sem er niðurskurðarlínan og er í 60. sæti ásamt fleirum. Nú má ekkert klikka hjá henni. Sendum henni góða strauma.

14. Par hjá Ólafíu á 14. holunni sem er par 3 hola. Er sex höggum undir pari og er sem stendur í í 45. sæti ásamt 15 öðrum kylfingum.

13. Já, já já. Meiri háttar. Ólafía er svo mikil keppnismanneskja. Fugl á 13. holunni og sá fjórði á hringnum. Hún er á þremur höggum undir pari og samtals á -6. Hún ætlar sér að komast áfram.

12. Ólafía fékk par á tólftu holunni og er samtals á fimm höggum undir pari. Hún má helst ekki gera mistök því nú miðast niðurskurðarlínan við -5 því margir kylfingar eru að gera það gott.

11. Já var það ekki. Þriðji fugl dagsins að detta í hús. Ólafía er þá á tveimur höggum undir pari og -5 samtals. Hún er í 56. sæti ásamt fleirum og kemst áfram ef hún heldur þessu striki.

10. Annað parið í röð og er einu undir pari á öðrum hring og samtals á fjórum höggum undir pari. Þetta verður spenna fram á lokaholu. Michelle Wie sem er með Ólafíu í ráshóp er á -12 en ekki gengur vel hjá Cheyenne Woods. Hún er á +2.

9. Par hjá Ólafíu og hún er þar með hálfnuð með hringinn. Ólafía er samtals á fjórum höggum undir pari og eins og staðan er núna miðast niðurskurðurinn við -4.

8. Það var laglegt. Ólafía nær í sinn annan fugl á áttundu holunni og er þar með á einu undir pari og samtals á fjórum höggum undir pari. Hún er sem stendur í 63. sæti ásamt níu öðrum kylfingum.

7. Annað parið í röð hjá Ólafíu sem er enn þremur höggum undir pari. Ólafía verður að herða sig. Niðurskurðarlínan gæti verið fjögur högg undir pari.

6. Par að detta í hús hjá Ólafíu á sjöttu holunni og nú við viljum við fá fugl sem allra fyrst.

5. Æ, æ. Fyrsti skollinn hjá Ólafíu á fimmtu holunni og vonandi sá síðasti á þessum hring. Hún er þremur höggum undir pari, er í 67. sæti ásamt nokkrum fleiri.

4. Annað par í röð hjá Ólafíu sem er samtals fjórum höggum undir pari en efstu konur eru á 13 höggum undir parinu.

3. Par hjá Ólafíu á þriðja teig. Þetta fer vel af stað hjá henni og við vonum svo sannarlega að hún komist í gegnum niðurskurðinn. Hún er sem stendur í 57. sæti ásamt fleiri kylfingum.

2. Já glæsilegt. Ólafía var að næla sér í fyrsta fugl dagsins og það á par fimm holu. Hún er þá á fjórum höggum undir parinu.

1. Ólafía hóf keppni í dag á fyrsta teig og hún fór holuna á fjórum höggum eða pari. Hún er því áfram á þremur höggum undir pari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert