Geggjaður hringur hjá goðsögninni

Jack Nicklaus.
Jack Nicklaus. AFP

Sigursælasti kylfingur allra tíma Jack Nicklaus getur enn þá spilað betur en flestir aðrir á golfvellinum þótt kennitalan sýni að goðsögnin sé að nálgast áttrætt. 

Nicklaus mætti á golfmót sem haldið var af Ernie Els, kylfingi frá Suður-Afríku, og var um góðgerðarmót að ræða. Nicklaus, sem er 77 ára gamall, fór á kostum og skilaði inn skori upp á 71 högg. 

Í golfíþróttinni er talið merkilegt afrek að geta spilað undir aldri eins og það er kallað, þ.e.a.s. að höggfjöldinn á 18 holu hring sé lægri en aldur viðkomandi kylfings í árum. Nicklaus gerði því gott betur og var sex högg undir aldri. 

Á samskiptamiðlum sagði Nicklaus að um væri að ræða annan hringinn síðan í nóvember þar sem hann notar færri en 80 högg. Í fyrra tókst honum að vera á fjórum höggum undir aldri á sjálfum Augusta National-vellinum og lék þá á 72. 

Jack Nicklaus hefur unnið fleiri risamót en nokkur annar í íþróttinni eða átján talsins. 

mbl.is