Fjórir úr Keili á Opna breska áhugamannamótinu

Gísli Sveinbergsson er á meðal keppenda á Opna breska áhugamannamótinu.
Gísli Sveinbergsson er á meðal keppenda á Opna breska áhugamannamótinu. mbl.is/Styrmir Kári

Fjórir kylfingar úr Golfklúbbnum Keili verða á meðal keppenda á Opna breska áhugamannamótinu í golfi. Guðrún Brá Björgvinsdóttir er eina konan, en hinir kylfingarnir eru Gísli Sveinbergsson, Henning Darri Þórðarson og Rúnar Arnórsson.

Guðrún hóf leik í kvennaflokki í gær og lék á þremur höggum yfir pari. Mótið er haldið í Wales á Pyle og Kenfig völlunum, en Guðrún er í 57. sæti eftir fyrsta hringinn af alls 144 keppendum. Að loknum 36 holum komast efstu 64 áfram, og leika þá holukeppni.

Þrír kylfingar leika á Opna breska áhugamannamótinu í karlaflokki, sem fer fram á Royal St. George vellinum í Skotlandi dagana 19-24. júní. Keppnisfyrirkomulagið hjá körlunum er svo að 288 keppendur leika 35 holu höggleik. Að því loknu tekur við holukeppni þar sem að 64 efstu fá keppnisrétt, líkt og í kvennaflokki. Sigurvegarinn á þessu móti fær keppnisrétt sem áhugamaður á risamótunum Opna breska meistaramótinu í júlí á þessu ári og Mastersmótinu á Augusta á næsta ári.

mbl.is