Mickelson hættir við þátttöku

Peter Mickelson.
Peter Mickelson. AFP

Bandaríski kylfingurinn Phil Mickelson hefur dregið þátttöku sína til baka á opna bandaríska meistaramótinu í golfi sem hófst á Erin Hills vellinum í Wisconsin í dag.

Ástæða þess að Mickelson getur ekki verið með á mótinu er sú að hann verður viðstaddur útskrift dóttur sinnar sem í Kaliforníu á svipuðum tíma og hann átti að hefja leik.

Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 1993 sem Mickelson er ekki á meðal keppenda á opna bandaríska meistaramótinu en það ár náði hann ekki að vinna sér keppnisrétt á mótið. Þá er þetta í fyrsta sinn í 23 ár sem hvorki Mickelson né Tiger Woods eru á meðal keppenda á risamóti.

Opna bandaríska mótið er það eina sem Mickelson hefur ekki tekist að vinna en hann hefur á ferli sínum unnið fimm risamót. Hann hefur sex hafnað í öðru sæti en Mickelson hefur 26 sinnum keppt á opna bandaríska meistaramótinu.

Roberto Diaz frá Mexíkó tekur sæti Mickelson á mótinu en hann er í 396. sæti á heimslistanum.

mbl.is