Stjörnur í vandræðum

Jordan Spieth og Dustin Johnson hafa oft verið hressari en ...
Jordan Spieth og Dustin Johnson hafa oft verið hressari en þeir voru í dag. AFP

Erin Hills-völlurinn í Wisconsin fór ekki mjúkum höndum um helstu stjörnur golfíþróttarinnar þegar Opna bandaríska meistaramótið hófst í dag. Rickie Fowler er með eins höggs forskot eftir frábæran hring en hann lék á 65 höggum sem er sjö undir pari vallarins. 

Englendingurinn Paul Casey lék á 66 höggum en hvorki hann né Fowler hafa sigrað á risamóti. Fleiri léku vel sem ekki eru eins þekkt nöfn og þrír hafa lokið leik á fimm undir pari: Brian Harman, Tommy Fleetwood og Brooks Koepka. 

Efsti kylfingur heimslistans og ríkjandi meistari, Dustin Johnson, fór snemma út eins og Fowler og lék á 75 höggum. Töldu flestir að sá hringur væri slakur en Jason Day og Rory McIlroy fóru enn ver út úr fyrsta deginum. Day lék á 79 höggum og bjargaði sér frá því að spila á 80 með fugli á lokaholunni. McIlroy var á 78 höggum. 

Jon Rahm og Jason Dufner sem hafa verið heitir undanfarið voru á 76 höggum, Bubba Watson á 75 og Henrik Stenson á 74 svo einhver dæmi séu nefnd. Jordan Spieth var á 73 höggum. 

Snjallir kylfingar eins og Justin Rose og Adam Scott náðu að leika á parinu eftir mikla baráttu. Masters-meistarinn Sergio Garcia var á 70 höggum og stendur því ágætlega að vígi. 

Þremur kylfingum í eldri kantinum gekk vel. Lee Westwood var á 69 höggum sem og Jim Furyk. Ernie Els lék á 70 en var um tíma fjórum höggum undir parinu og Angel Cabrera var á 71 höggi. 

Jason Day tókst naumlega að vera undir 80 höggum.
Jason Day tókst naumlega að vera undir 80 höggum. AFP
mbl.is