Galopin toppbarátta á Opna bandaríska

Brian Harman skoðar pútt fyrir fugli á 18. holunni en ...
Brian Harman skoðar pútt fyrir fugli á 18. holunni en þar fékk hann par. AFP

Toppbaráttan er galopin fyrir lokadaginn á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi. Eftir 54 holur er Bandaríkjamaðurinn Brian Harman með eitt högg í forskot en hann er í 50. sæti heimslistans. Landi hans Justin Thomas setti móts- og vallarmet þegar hann lék á 63 höggum. 

Harman er samtals á 12 höggum undir pari. Frammistaða Harman er áhugaverð þar sem hann slær ekki langt miðað við bestu kylfinga í heimi og Erin Hills-völlurinn í Wisconsin er langur og þeir högglengri voru taldir eiga meiri möguleika en hinir. Skor Harman í dag er met á einum hring á Opna bandaríska og metjöfnun þegar kemur að besta hring á risamótunum. Margir kylfingar deila því meti. Fleiri hafa leikið á 63 höggum á Opna bandaríska og Johnny Miller gerði það fyrstur árið 1973 en hann var á 8 höggum undir pari vallarins. Thomas var hins vegar á 9 undir pari vallar. 

Þrír kylfingar eru á 11 undir pari samtals. Thomas er einn þeirra en hinir eru Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka og Englendingurinn Tommy Fleetwood. Harman var á 67, Thomas á 63 en Koeka og Fleetwood voru á 68 höggum. 

Bandaríkjamaðurinn Ricke Fowler var einnig á 68 höggum og er samtals á 10 undir pari. Fowler er án efa þekktastur þeirra sem eru í efstu sætunum í mótinu en engin þessara kylfinga hefur unnið risamót. 

Si Woo Kim frá Suður-Kóreu er á 9 undir pari samtals. Þrír Bandaríkjamenn eru á 8 undir en það eru Patrick Reed, Russell Henry og Charley Hoffman sem einnig lék vel á Masters í apríl. Reed sýndi baráttuanda sem hann hefur sýnt íþróttáhugamönnum í Ryder-bikarnum og lék á 65 höggum í dag.

Flatirnar á Erin Hills voru fremur mjúkar í dag eftir smá rigninu og því skapaðist tækifæri fyrir kylfingana að skora vel í dag. Völlurinn hefur hins vegar reynst allt annað en auðveldur fyrir þá sem ekki hafa verið upp á sitt besta. Sést það best á þeim nöfnum sem þurftu að fara heim eftir 36 holur en í þeim hópi voru efsti kylfingur heimslistans Dustin Johnson og kylfingar sem unnið hafa risamót eins og Rory McIlroy, Jason Day, Henrik Stenson, Justin Rose og Adam Scott. 

mbl.is