Galopin toppbarátta á Opna bandaríska

Brian Harman skoðar pútt fyrir fugli á 18. holunni en …
Brian Harman skoðar pútt fyrir fugli á 18. holunni en þar fékk hann par. AFP

Toppbaráttan er galopin fyrir lokadaginn á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi. Eftir 54 holur er Bandaríkjamaðurinn Brian Harman með eitt högg í forskot en hann er í 50. sæti heimslistans. Landi hans Justin Thomas setti móts- og vallarmet þegar hann lék á 63 höggum. 

Harman er samtals á 12 höggum undir pari. Frammistaða Harman er áhugaverð þar sem hann slær ekki langt miðað við bestu kylfinga í heimi og Erin Hills-völlurinn í Wisconsin er langur og þeir högglengri voru taldir eiga meiri möguleika en hinir. Skor Harman í dag er met á einum hring á Opna bandaríska og metjöfnun þegar kemur að besta hring á risamótunum. Margir kylfingar deila því meti. Fleiri hafa leikið á 63 höggum á Opna bandaríska og Johnny Miller gerði það fyrstur árið 1973 en hann var á 8 höggum undir pari vallarins. Thomas var hins vegar á 9 undir pari vallar. 

Þrír kylfingar eru á 11 undir pari samtals. Thomas er einn þeirra en hinir eru Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka og Englendingurinn Tommy Fleetwood. Harman var á 67, Thomas á 63 en Koeka og Fleetwood voru á 68 höggum. 

Bandaríkjamaðurinn Ricke Fowler var einnig á 68 höggum og er samtals á 10 undir pari. Fowler er án efa þekktastur þeirra sem eru í efstu sætunum í mótinu en engin þessara kylfinga hefur unnið risamót. 

Si Woo Kim frá Suður-Kóreu er á 9 undir pari samtals. Þrír Bandaríkjamenn eru á 8 undir en það eru Patrick Reed, Russell Henry og Charley Hoffman sem einnig lék vel á Masters í apríl. Reed sýndi baráttuanda sem hann hefur sýnt íþróttáhugamönnum í Ryder-bikarnum og lék á 65 höggum í dag.

Flatirnar á Erin Hills voru fremur mjúkar í dag eftir smá rigninu og því skapaðist tækifæri fyrir kylfingana að skora vel í dag. Völlurinn hefur hins vegar reynst allt annað en auðveldur fyrir þá sem ekki hafa verið upp á sitt besta. Sést það best á þeim nöfnum sem þurftu að fara heim eftir 36 holur en í þeim hópi voru efsti kylfingur heimslistans Dustin Johnson og kylfingar sem unnið hafa risamót eins og Rory McIlroy, Jason Day, Henrik Stenson, Justin Rose og Adam Scott. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert