Mistök sem ég læri af

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir Ljósmynd/AFP

„Það eru auðvitað vonbrigði að komast ekki áfram, en ég gerði mitt besta og spilaði ágætlega þó svo ég hefði mátt skora betur á nokkrum holum,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, í samtali við Morgunblaðið eftir að hún féll úr keppni á KPMG-risamótinu í Illinois í Bandaríkjunum.

Ólafía Þórunn lék hringina tvo á fimm höggum yfir pari Olympia Fields-vallarins en þeir kylfingar sem léku á tveimur höggum yfir pari og betur komust áfram, 72 talsins.

Fyrri hringinn lék Ólafía Þórunn á þremur höggum yfir pari og þá var strax ljóst að hún yrði að skora mun betur daginn eftir til að eiga möguleika á að komast áfram. Hún hóf leik á tíundu holu og byrjaði á tveimur pörum, skolla og þá fimm pör í röð. Hún fékk síðan þrjá fugla í röð, á 18. brautinni og fyrstu og annarri, og var þá samtals á einu höggi yfir pari og útlitið mjög gott. En þá komu fjórir skollar í röð og síðan lauk hún hringnum á þremur pörum.

„Ég vissi ekkert hver staðan var eða hvar niðurskurðarlínan lá. Ég var ánægð með þessa þrjá fugla í röð og ætlaði bara að halda áfram á þeirri braut, en ég missti einbeitinguna einhvern veginn og ég held að það hafi verið vegna þess að ég borðaði ekki nógu mikið fyrir hringinn og því féll blóðsykurinn. Þetta eru auðvitað algjör byrjendamistök sem ég mun læra af,“ sagði Ólafía Þórunn einlæg sem endranær.

Hún sagðist ekki hafa fundið neinn mun á að spila á þessu risamóti og öðrum mótum sem hún hefði keppt á. „Nei, mér leið alveg eins og venjulega, en völlurinn er settur upp þannig að hann er mun erfiðari en á flestum öðrum mótum. En ég var ekkert stressuð af því þetta væri stórmót enda hugsaði ég þetta bara eins og hvert annað mót.“

Hún sagði í sjálfu sér ágætt að enda á þremur pörum – en samt: „Það var svo sem ágætt, en ég rétt missti fugla þar, krækti í pútt fyrir fugli á næstsíðustu holunni og var aðeins of stutt, en beint á holu, á síðustu. Það var dálítið pirrandi, en þetta var bara þannig dagur, það gekk ekkert upp. Ég var alveg sátt við hvernig ég spilaði en ég hefði kosið að skora aðeins betur.“

Sjá allt viðtalið við Ólafíu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert