Ólafía færði Hringnum fjórar milljónir

Ólafía Þórunn færir Barnaspítala Hringsins féð í dag.
Ólafía Þórunn færir Barnaspítala Hringsins féð í dag. Ljósmynd/Landspítali

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir atvinnukylfingur og KPMG hafa afhent Barnaspítala Hringsins 4 milljónir króna sem söfnuðust í góðgerðargolfmóti þriðjudaginn 8. ágúst 2017.  Féð rennur í sjóði Barnaspítalans sem eru ætlaðir til að fjármagna tæki og annan búnað fyrir spítalann í þágu barna og fjölskyldna þeirra.

Góðgerðargolfmótið er hluti af samstarfi Ólafíu Þórunnar og KPMG og var það ósk hennar að söfnunarféð rynni til Barnaspítala Hringsins. Hún fékk fjórar stöllur sínar sem keppa einnig á LPGA-mótaröðinni til að koma og taka þátt auk íslenskra afrekskylfinga. Mótið var haldið á Leirdalsvelli, golfvelli Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (GKG).  Fyrirkomulagið var þannig að 21 fyrirtæki greiddi fyrir þátttöku samtals 64 keppenda.

Féð sem safnaðist á golfmótinu var formlega afhent 10. ágúst 2017.  Viktoría Katrín, 7 ára, kom ásamt fleirum með Ólafíu Þórunni frænku sinni. Þegar Viktoría Katrín var kornabarn þurfti hún að dvelja á Barnaspítala Hringsins og það var ástæðan fyrir því að Ólafía Þórunn ákvað að láta féð sem safnaðist renna til hans.  Meðal annarra við afhendinguna var Sandra Gal frá Þýskalandi sem keppir á LPGA-mótaröðinni og tók þátt í golfmótinu 8. ágúst og Jóhanna Kristín Guðmundsdóttir frá KPMG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert