Axel leikur með Englendingum

Axel Bóasson varð Íslandsmeistari í júlí.
Axel Bóasson varð Íslandsmeistari í júlí. Ófeigur Lýðsson

Ljóst er hverjir verða með Axel Bóassyni í ráshópi á Made in Denmark-mótinu sem hefst á morgun. Axel hefur leik kl. 12:30 að íslenskum tíma ásamt tveimur Englendingum, Michael Hoey og Laurie Canter. Mun hann leika með þeim fyrstu tvo dagana.

Hoey hefur leikið í Evrópumótaröðinni í nokkur ár og hefur unnið fimm mót sem atvinnumaður. Hann hefur þénað tæplega fjórar milljónir evra á mótaröðinni, en stærstu sigrar hans eru á Alfred Dunhill Links Championship árið 2011 og á Trophee Hassan-mótinu ári síðar.

Canter leikur á sínu öðru tímabili í Evrópumótaröðinni en hann á glæstan áhugamannaferil að baki. Laurie Canter er í 155. sæti stigalista mótaraðarinnar.

Axel varð Íslandsmeistari á heimavelli í júlí, en þess má til gamans geta að nýkrýndur stigameistari Eimskipsmótaraðarinnar, Vikar Jónasson, mun vera kylfusveinn Axels á mótinu.

Hér verður hægt að fylgjast með stöðunni á morgun.

mbl.is