Guðrún og Valdís úr leik

Valdís Þóra Jónsdóttir
Valdís Þóra Jónsdóttir mbl.is/Árni Sæberg

Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili og Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni eru báðar úr leik á úrtökumótunum fyrir bandarísku LPGA-mótaröðina í golfi. 

Guðrún og Valdís féllu úr keppni eftir 36 holur á fyrsta stigi úrtökumótanna á Mission Hills golfsvæðinu í Kalifornía í Bandaríkjunum. 

125 kylfingar af 359 komust áfram og fá að leika lokahringinn á morgun. Að honum loknum komast 90 efstu kylfingarnir áfram á annað stig úrtökumótanna.

Valdís lék ágætlega og var á 73 höggum í dag en 74 í gær. Var hún tveimur höggum frá því að komast áfram og hafnaði í 164. sæti.

Guðrún Brá var lengra frá markmiðinu og lék báða hringina á 76 höggum í þessari frumraun sinni á úrtökumótunum en Guðrún lauk háskólanámi í Bandaríkjunum síðasta vor. Hafnaði hún í 279. sæti.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR verður alla vega með takmarkaðan þáttökurétt á LPGA-mótaröðinni á næsta ári út á þann árangur sem hún hefur náð á LPGA í ár og hefur hún fleiri mót til að reyna að tryggja sér fullan keppnisrétt á næsta ári.  

Guðrún Brá Björgvinsdóttir
Guðrún Brá Björgvinsdóttir Ljósmynd/GSÍ
mbl.is