Slasaði sig í miðri golfsveiflu

Lucas Glover var óheppinn um helgina.
Lucas Glover var óheppinn um helgina. AFP

Það er sjaldséð að atvinnukylfingar slasi sig það mikið á golfvellinum að þeir hreinlega hrynji í jörðina. Lucas Glover lenti hins vegar í slíku atviki á laugardaginn á Northern Trust-mótinu í PGA-mótaröðinni.

Glover var staddur á 18. braut þar sem hann gerði sig kláran að slá annað höggið. Boltinn lá í svolítilli brekku, svo hann stóð fyrir neðan hann. Glover hóf aftursveifluna, en um leið og hann byrjaði niðursveifluna rann hann á hægri fæti. Hann náði varla að klára sveifluna og greip strax um hægra hnéð þar sem hann datt í jörðina eftir að hafa fengið ágætis slink.

Glover var ekki viss hvort að hann gæti staðið upp, en hann beið eftir aðhlynningu frá sjúkraliðum sem huguðu að honum. Þá þurfti að hleypa öðrum ráshópum fram úr meðan á því stóð. Glover kláraði hringinn og lék einnig síðasta hringinn í gær, en hann lauk leik á þremur höggum yfir pari í 40. sæti.

Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan.

mbl.is