Ólafía í skemmtilegu viðtali á golfbíl

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdótttir var í skemmtilegu viðtali á vefsíðu LPGA-mótaraðarinnar í golfi í gær.

Í viðtalinu spjallar Ólafía við Amy Rogers, blaðamann LPGA, á léttum nótum þar sem þær keyra um á golfbíl og kynnir Ólafía hana lítillega fyrir Íslandi og sjálfri sér auk þess sem hún fer yfir markmið sín fyrir lok tímabilsins.

Viðtalið má sjá hér

Markmið Ólafíu eru m.a. að halda keppnisréttinum í LPGA-mótaröðinni en efstu 100 keppendurnir á peningalistanum halda fullum keppnisrétti en þar er Ólafía í 109. sæti. Hún hefur leikið vel upp á síðkastið og er þegar búin að tryggja sér takmarkaðan keppnisrétt og á ágæta möguleika að koma sér í hóp 100 efstu kvenna.

Ólafía hefur leik á sínu 18. móti í kvöld en hún á rástíma kl. 20:43 að íslenskum tíma á Cambia Portland Classic-mótinu.

mbl.is