Birgir Leifur á 63 höggum

Birgir Leifur Hafþórsson
Birgir Leifur Hafþórsson Ljósmynd/GSÍ

Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG skilaði inn mögnuðu skori á fyrsta hringnum á Opna Cordon mótinu í Frakklandi á Áskorendamótaröðinni. Birgir lék á 63 höggum og er í 3. sæti á sjö höggum undir pari. 

Hringurinn var nokkuð sérkennilegur fyrir Birgi að því leytinu til að leik var frestað í gær eftir aðeins fjórar holur. Þá hafði Birgir byrjað vel og fengið tvö pör og tvo fugla. Honum tókst að fylgja því eftir þegar þráðurinn var tekinn upp snemma í morgun. Fékk hann tvo fugla til viðbótar á fyrri níu holunum og lék þær á 31 höggi. Á seinni níu fékk hann fjóra fugla og einn skolla. Pörin á hringnum voru níu, einn skolli og fuglarnir átta. 

Annar hringurinn verður einnig leikinn í dag. Birgir er ekki farinn af stað en er nú höggi á eftir efstu mönnum sem eru lagðir af stað. Hann var hins vegar í efsta sæti eftir fyrsta hringinn á samt Nico Gayger frá Síle. 

Skorið er eitt það allra besta sem Íslendingur hefur skilað inn á stökum hring í móti á erlendri grundu. Þar á Örn Ævar Hjartarson „metið“ frá því 1998 þegar hann lék á 60 höggum á New Course á móti í St. Andrews í Skotlandi.  

Birgir er í 77. sæti á stigalista mótaraðarinnar fyrir mótið. Takist honum vel upp og verði á meðal efstu manna þá ætti hann að hækka töluvert á listanum. Fimmtán efstu kylfinga listans í lok árs fá keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næsta ári. 45 efstu frá keppnisrétt í lokamótinu sem fram fer í Oman. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert