Ólafía komst í gegnum niðurskurðinn

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir komst í gegnum niðurskurðinn í Portland í ...
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir komst í gegnum niðurskurðinn í Portland í kvöld. AFP

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir komst í gegnum niðurskurðinn á Camb­ia Portland Classic-mót­inu sem er hluti af LPGA-mótaröðinni og fram fer í Portland í Oregon í Bandaríkjunum þessa dagana.

Ólafía Þórunn lék annan hringinn á 72 höggum sem er par vallarins, en hún lék fyrsta hringinn á tveimur höggum undir pari vallarins. Ólafía Þórunn hefur þar af leiðandi leikið hringina tvo á samtals tveimur höggum undir pari vallarins, en niðurskurðarlínan er miðuð við að leika á einu höggi undir pari vallarins eða betur.

Ólafía Þórunn lék nokkuð stöðugt golf á hringnum í­ dag, en hún fékk fjóra fugla, ellefu pör, tvo skolla og einn tvöfaldan skolla.

Ólafía Þórunn verður því á meðal keppenda á þriðja og fjórða hring mótsins sem leiknir verða á morgun og sunnudaginn. Ólafía Þórunn er í 50. - 62. sæti mótsins eins og sakir standa, en hún er átta höggum á eftir bandaríska kylfingnum Stacy Lewis sem er í forystu á tíu höggum undir pari vallarins. 

mbl.is