„Er algjörlega toppurinn“

Birgir Leifur Hafþórsson með verðalunagripinn.
Birgir Leifur Hafþórsson með verðalunagripinn. Ljósmynd/Evrópumótaröðin

„Ég er búinn að stefna að þessu svo lengi og það var alveg þess virði að bíða eftir þessu,“ sagði atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær eftir að hann fagnaði fyrsta sigri sínum á Áskorendamótaröð Evrópu í golfi, næststerkustu mótaröð Evrópu.

Birgir Leifur lék hreint frábærlega á Opna Gordon-mótinu í Frakklandi, setti mótsmet með því að spila fyrstu þrjá hringina á 63, 65 og 64 höggum og var samtals 18 höggum undir pari fyrir lokahringinn sem átti að fara fram í gær. Vegna úrhellisrigningar var völlurinn hins vegar á floti, lokahringurinn blásinn af með stuttum fyrir vara og Birgi dæmdur sigurinn enda var hann með sjö högga forskot á næstu kylfinga.

„Þetta var alveg ótrúlega gaman, að spila svona virkilega vel og undir svona mikilli pressu frá andstæðingunum. Þetta er klárlega stærsta stundin á golfferlinum, ásamt því þegar ég tryggði mér þátttökurétt á Evrópumótaröðinni á sínum tíma. Þetta er rosalega góður árangur, því það er erfitt að vinna. Það eru svo margir sem eru að spila vel, svo þetta er algjörlega toppurinn,“ sagði Birgir Leifur.

Þetta er sigur heildarinnar

„Ég náði að finna góða einbeitingu og hugsa um það sem skiptir máli. Ég tók góðar og skynsamlegar ákvarðanir þegar þess þurfti og fór að sækja þegar ég gat. Svo var pútterinn sjóðandi heitur og það skiptir öllu máli, því það róar hugann svolítið líka og maður getur verið afslappaðri,“ sagði Birgir Leifur.

Þetta er fyrsti sigur hans á atvinnumóti erlendis, en hann hóf atvinnumannaferilinn árið 1997. Hann segist aldrei hafa spilað betur en nú, en hverju þakkar hann það að vera að toppa núna?

„Það eru margir þættir sem spila inn í. Ég á fullt af fólki að þakka heima sem hefur staðið á bak við mig, haft trú á mér og hjálpað mér. Allir styrktaraðilar og teymið í kringum mig, konan hvetur mann áfram og stappar í mann stálinu þegar á móti blæs sem er alveg ómetanlegt. Svo ég held að þetta sé sigur heildarinnar. Maður er ekkert að verða yngri, en það er gaman að geta náð fram því besta sem maður hefur að bjóða. Þó svo að ég sé orðinn 41 árs sýnir þetta að maður á nóg inni.“

Sjá allt viðtalið við Birgi Leif í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag