Ólafía fikrar sig upp á peningalistanum

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir fikraði sig ofar á peningalistann á LPGA-mótaröðinni í golfi eftir Cambia Portland Classic mótið sem lauk í gær en þar endaði hún í 39. sæti á fimm höggum undir pari.

Ólafía Þórunn fór úr 109. sætinu upp í það 101. en 100 efstu í lok keppnistímabilsins halda keppnisrétti sínum á þessari sterkustu mótaröð heims. Þetta er fjórði besti árangur Ólafíu Þórunnar á LPGA mótaröðinni. Besti árangur hennar er 13. sæti á Opna skoska meistaramótinu. Alls hefur hún leikið á 18 mótum á tímabilinu. Hún hefur komist í gegnum niðurskurðinn á 8 mótum.

Ólafía Þórunn fékk rúmlega 730.000 kr. í verðlaunafé fyrir árangurinn í Oregon. Alls hefur hún fengið 7,7 milljónir kr. í verðlaunafé á keppnistímabilinu.

Næsta mót hjá Ólafíu Þórunni er Indy Women sem fram fer í Indianapolis 7.-9. september.

mbl.is