Sterkasta mót sem Íslendingur vinnur

Birgir Leifur Hafþórsson
Birgir Leifur Hafþórsson Ljósmynd/GSÍ

Áskorendamótið í Frakklandi, Opna Gordon-mótið, er sterkasta atvinnumannamót sem íslenskur kylfingur hefur unnið, en þar stóð Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG uppi sem sigurvegari í gær.

Áskorendamótaröðinni er haldið úti af Evrópumótaröðinni og er hún sú næststerkasta í álfunni. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir leika nú á sterkari mótaröðum en þar hefur ekki komið íslenskur sigur í hús. Birgir sjálfur og Ólöf María Jónsdóttir voru einnig á sterkari mótaröð, Evrópumótaröðinni, á árum áður en unnu ekki mót.

Birgir hefur nokkrum sinnum verið nálægt sigri á mótum á Áskorendamótaröðinni og verið á meðal efstu manna en ekki unnið mót á mótaröðinni fyrr en nú.

Skor Birgis er svo kapítuli út af fyrir sig, en hann lék á 63, 65 og 64 höggum. Sjaldan hafa Íslendingar skilað inn skorkortum upp á færri högg en 63 á mótum erlendis. Um það eru þó dæmi, en Örn Ævar Hjartarson á „metið“ frá 1998 þegar hann lék New Course í St. Andrews á 60 höggum á áhugamannamóti. Þá lék Rúnar Arnórsson á 62 höggum á háskólamóti í Kaliforníu í Bandaríkjunum í mars í fyrra. Sjálfur á Birgir best 61 högg á hinum kunna La Reserva-velli á Spáni en var þá á minni mótaröð. 63 högg er besta skor hans á Áskorendamótaröðinni.